Enski boltinn

Nýr hópur fjárfesta kominn fram með áhuga á Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson er knattspyrnustjóri Liverpool.
Roy Hodgson er knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Hópur kanadískra og arabískra fjárfesta er sagður hafa áhuga á að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool og að viðræður séu vel á veg komnar.

Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum í dag en fréttirnar koma á óvart þar sem talið var í gær að Kínverjinn Kenny Huang væri líklegastur til að kaupa Liverpool.

Nýi fjárfestahópurinn er sagður kominn langt á leið með að leggja fram kauptilboð, yfirtöku skulda og fjárhagsáætlun fyrir nýjan leikvang sem á að rísa á Stanley Park.

Það er Sýrlendingurinn Yahya Kirdi sem fer fyrir hópnum en hann er fyrrum knattspyrnumaður. „Með meiri pening til að styrkja leikmannahópinn og fjármunum til að byggja nýjan leikvang verður Liverpool með nægilega góðan grunn til að vera í fremstu röð liða í ensku úrvalsdeildinni og Evrópu um ókomin ár," er haft eftir Kirdi í enskum fjölmiðlum.

Martin Broughton, stjórnarformaður Liverpool, sagði í gær að það væri takmark núverandi eiganda, þeirra Tom Hicks og George Gillett, að selja félagið fyrir lok ágústmánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×