Fótbolti

Argentínumenn fóru illa með heimsmeistara Spánverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skorar hér fyrsta mark leiksins á 9. mínútu.
Lionel Messi skorar hér fyrsta mark leiksins á 9. mínútu. Mynd/AP
Argentínumenn fóru illa með heimsmeistara Spánverja í vináttulandsleik í Buenos Aires í gær. Argentína komst í 2-0 eftir 12 mínútna leik og vann leikinn að lokum 4-1. Úrslitin eru mikil uppreisn æru fyrir argentínska liðið sem tapaði 4-0 fyrir Þjóðverjum í átta liða úrslitum á HM í sumar þegar allir bjuggust við að þeir væru að fara alla leið.

Carlos Tevez lagði upp mörk fyrir Lionel Messi og Gonzalo Higuain á fyrstu 12 mínútunum og skoraði síðan það þriðja sjálfur á 34. mínútu. Fernando Llorente minnkaði muninn á 83. mínútu en varamaðurinn Sergio Aguero innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Lionel Messi og Gonzalo Higuain sáu til þess að í fyrsta sinn í sögunni skoruðu bæði leikmaður Barcelona og Real Madrid í sama leik á móti Spánverjum.

Sergio Batista tryggði sér væntanlega fastráðingu í þjálfarastarfið en hann hafði tekið tímabundið við af Diego Maradona og var í fyrstu aðeins ráðinn til áramóta.

„Við vorum sendir heim frá Suður-Afríku en við hefðum alveg eins getað unnið HM. Ef spænska liðið leit ekki út eins og liðið sem vann HM í sumar þá hafði leikur Argentínu mikið um það að segja. Við spiluðum eins og við vildum spila," sagði Sergio Batista kátur í leikslok.

Vincente del Bosque, þjálfari Spánverjar, sagði að það væri engin skömm að tapa fyrir Argentínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×