Enski boltinn

Sir Alex: Líklegt að úrslit ráðist á markatölu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sir Alex vonar að Dimitar Berbatov og Wayne Rooney haldi áfram að sjá til þess að markatala United sé sterk.
Sir Alex vonar að Dimitar Berbatov og Wayne Rooney haldi áfram að sjá til þess að markatala United sé sterk.

Venjan er sú í ensku úrvalsdeildinni að það lið sem hefur flest stig að loknu tímabilinu stendur uppi sem sigurvegari.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að það myndi ekki koma sér á óvart ef úrslitin þetta árið myndu ráðast á markatölu. Aðeins þrjú stig skilja að United, Chelsea og Arsenal á toppi deildarinnar.

United og Chelsea eru bæði með +47 mörk í markatölu en Arsenal er sjö mörkum á eftir, hefur +40 í markatölu.

„Chelsea vann 5-0 sigur á Portsmouth í vikunni og það gerir að verkum að liðið hefur jafnað okkur á markatölu. Það gæti reynst dýrmætt í lokin. Úrslitin gætu vel ráðist á markatölunni," sagði Sir Alex.

„Síðustu ár höfum við alltaf haft gott forskot þegar kemur að markatölunni en þetta tímabilið er þetta mjög jafnt. Það eina sem við getum gert er að halda áfram að skora mörk og vinna leiki."

Margir telja að Arsenal sé í bestu stöðunni af toppliðunum þremur þar sem liðið eigi auðveldustu dagskránna framundan. „Á pappírnum eiga þeir auðveldari leiki eftir en ég er ekki viss um að það skipti máli þetta tímabil. Það geta allir tapað stigum allstaðar," sagði Sir Alex.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×