Innlent

SS hættir við Halal slátrun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ekkert verður af frekari slátrun hjá SS með svokallaðri Halal aðferð múslima, segir Steinþór Skúlason forstjóri SS í samtali við Vísi. Ástæðan er sú að ekki náðust samningar um sölu á kjötinu erlendis og kvartanir sem SS bárust vegna fyrirætlananna.

SS hugðist markaðssetja lambakjöt erlendis og í því skyni að slátra með svokallaðri Halal aðferð. Viðskiptablaðið greindi svo frá því á dögunum að unnið væri að því meðal kristinna trúfélaga hérlendis að afla upplýsinga um hvaða sláturhús á landinu slátra með þessari aðferð. Ætlunin væri að beina því til kristinna manna á Íslandi að þeim væri óheimilt að neyta fórnarkjöts annarra trúarbragða. Því ætti að sniðganga vörur frá fyrirtækjunum sem notuðust við þessa aðferð.

„Þessi slátrun var nú alltaf ætluð fyrir möguleika á útflutningi á nýja markaði þannig að hún var í sjálfu sér ekki ætluð fyrir innanlandsmarkað. það er ekki ennþá neinir samningar í hendi um útflutning til arabalanda - það er mál sem er í skoðun. þannig að það var í sjálfu sér ekki ástæða til að halda þessu áfram að sinni. Og auðvitað spilaði inn í neikvæð viðbrögð sem við fengum," segir Steinþór.

Steinþór segir að allmargir hafi haft samband við sig til þess að kvarta yfir því að slátrað væri með svokallaðri Halal aðferð. Þeir gætu hafa verið í kringum 50. Engu að síður mun verða slátrað með þessari aðferð í framtíðinni ef samningar nást um sölu á lambakjöti erlendis.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.