Enski boltinn

Stoke rannsakar slagsmál Beattie og Pulis

Elvar geir Magnússon skrifar
Pulis og Beattie þegar allt lék í lyndi.
Pulis og Beattie þegar allt lék í lyndi.

Sóknarmaðurinn James Beattie hjá Stoke er allt annað en sáttur við hvernig félagið höndlaði slagsmálin milli hans og knattspyrnustjórans Tony Pulis í desember.

Hann hefur nú lagt fram opinbera kvörtun til félagsins.

Það þurfti að skilja Beattie og Pulis í sundur í búningsklefanum eftir tapleik gegn Arsenal en Pulis er þá sagður hafa ráðist á Beattie. Högg voru látin falla og nuddari liðsins dró Pulis í burtu. Pulis var búinn að segja að málinu væri lokið en eftir kvörtunina frá Beattie neyðist félagið til að rannska málið nánar.

Beattie hefur aðeins byrjað tvo leiki eftir atvikið og var nálægt því að fara til Fulham í janúar en það féll niður á síðustu stundu. Hann er nú á meiðslalistanum og þar sem aðeins tveir mánuðir eru eftir af tímabilinu er talið að hann hafi þegar leikið sinn síðasta leik fyrir Stoke.

Peter Coates, stjórnarformaður Stoke, sagði við Guardian að málið væri í vinnslu. Hann telur að ferli Beattie hjá félaginu sé þó ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×