Erlent

Þakhluti á höll Nerós hrundi í dag

Óli Tynes skrifar
Slökkviliðsmenn leita í þakrústunum. Í fjarska má sjá hringleikahúsið Coloseum.
Slökkviliðsmenn leita í þakrústunum. Í fjarska má sjá hringleikahúsið Coloseum. Mynd/AP

Stór hluti af þakinu á hinni Gullnu höll Nerós í Róm hrundi í dag. Ekki er vitað til þess að neinn hafi orðið þar undir, en slökkviliðsmenn hafa girt svæðið af og eru að leita í rústunum.

Neró byggði þessa höll á fyrstu öld eftir Krist og eftir brunann mikla í Róm. Margir sagnfræðingar telja að Neró hafi leyft eldunum að geisa til þess einmitt að fá pláss fyrir höllina.

Hún liggur að hluta til undir og inn í fjórum af hinum sjö hæðum Rómar. Keisarinn naut hallarinnar þó ekki lengi því hann framdi sjálfsmorð árið 68 eftir Krist.

Á næsta áratug á eftir voru styttur, marmari, eðalsteinar og fílabein fjarlægt úr höllinni. Það var svo fyllt upp í hana að mestu og byggingar reistar ofan á henni meðal annars hin miklu baðhús Caracallas.

Féll í gleymsku

Höllin féll svo í gleymsku og fannst ekki aftur fyrr en á fimmtándu öld. Veggir hennar voru skreyttir stórkostlegum freskum og Meistararnir Rafael og Michelangelo dáðust að listaverkunum á sinni tíð. Þeir ristu báðir nöfn sín í veggina.

Undanfarin ár hefur hún verið með mest sóttu ferðamannastöðum í Róm. Það hefur þó tíðum þurft að loka henni vegna viðgerða þar sem vatn hefur síast niður í hana. Undanfarið hefur einmitt verið mjög rigningasamt í Róm.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×