Enski boltinn

Man. United vann Tottenham og er áfram fimm stigum á eftir Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Vidic fagnar hér sigurmarki sínu.
Nemanja Vidic fagnar hér sigurmarki sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty

Manchester United vann 2-0 sigur á Tottenham á Old Trafford í kvöld og komst um leið upp að hlið Arsenal í öðru til þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Nani kom að báðum mörkum United í leiknum, lagði upp það fyrra og skoraði það síðara.

Arsenal er með betri markatölu en bæði lið eru áfram fimm stigum á eftir toppliði Chelsea. Staða efstu liðanna breyttist því ekkert frá því fyrir leiki dagsins þar sem öll þrjú efstu liðin unnu sína leiki.

Ji-Sung Park var nálægt því að koma Manchester yfir strax á 2. mínútu þegar hann átti skot í stöng af um 23 metra færi. Rafael van der Vaart var einnig mjög nálægt því að skora á 9. mínútu þegar þrumuskot hans af 22 metra færi skall í stönginni.

Miðvörðurinn Nemanja Vidic kom Manchester í 1-0 á 30. mínútu með hörkuskalla eftir aukaspyrnu Nani frá hægri.

Nani innsiglaði síðan sigur Manchester United með öðru marki með ótrúlegu marki á 84. mínútu. Heurelho Gomes, markvörður Tottenham, lagði boltann frá sér eins og að hann héldi að það væri búið að dæma aukaspyrnu en Nani nýtti sér það, tók boltann og skoraði.

Leikmenn Tottenham mótmæltu en í endursýningunni sést að Mark Clattenburg, dómari leiksins, gaf Nani merki um að hann mætti taka boltann.

Nani gat skorað þriðja markið undir lokin þegar hann lyfti boltanum yfir Gomes og ofan á slánna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×