Enski boltinn

Bale ætlar að klára samninginn við Tottenham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gareth Bale, leikmaður Tottenham, segir að hann ætli ekki að fara frá félaginu áður en samningur hans rennur út árið 2014.

Bale hefur slegið í gegn á leiktíðinni og var frábær í tveimur leikjum Tottenham gegn Evrópumeisturum Inter í Meistaradeild Evrópu. Tottenham vann Inter á þriðjudaginn, 3-1.

„Ég vil vera áfram í Tottenham og njóta þess að spila knattspyrnu. Ég nýt þess að spila með Tottenham og hlakka til framtíðarinnar."

Bale hefur verið orðaður við mörg stórlið að undanförnu, til að mynda Real Madrid og Barcelona. Hann gekk til liðs við Tottenham frá Southampton árið 2007.

„Ég skil ekki þetta fár í kringum mig og finnst þetta nokkuð fjarstæðukennt," sagði Bale. „En allir knattspyrnumenn vita að þetta fylgir velgengni og þetta er vissulega nokkuð ánægjulegt."

Bale fór illa með Brasilíumanninn Maicon í leiknum gegn Inter á þriðjudagskvöldið og stakk hann ítrekað af. En hann segist þó ekki vera sá fótfráasti í boltanum.

„Theo Walcott er fljótari en ég. Við vorum herbergisfélagar þegar við vorum saman hjá Southampton og hann er án nokkurs vafa fljótari en ég. Við erum enn góðir félagar og ég heyri í honum reglulega."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×