Enski boltinn

Torres vill að Liverpool fái nýja eigendur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres, leikmaður Liverpool.
Fernando Torres, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres, leikmaður Liverpool, segir að það sé lykilatriði að félagið eignist nýja eigendur til að endurvekja gömlu, góðu dagana hjá félaginu.

Bandaríkjamennirnir Tom Hicks og George Gillett hafa verið mjög umdeildir og vilja selja félagið. Martin Broughton, stjórnarformaður félagsins, stefndi að því að ganga frá sölunni fyrir mánaðamót en það gekk ekki eftir.

Torres verður áfram í herbúðum Liverpool þrátt fyrir meintan áhuga Chelsea og Manchester City.

„Það er grundvallaratriði að félagið fái nýja eigendur svo að liðið geti orðið samkeppnishæft á nýjan leik," sagði Torres í samtali við spænska útvarpsstöð.

„Og við erum ekki langt á eftir hinum liðunum. Tímabilið í fyrra var hræðilegt en þar áður vorum við aðeins fjórum stigum á eftir Manchester United."

„Vonandi getum við fundið hóp fjárfesta sem kaupir félagið og gerir Liverpool kleift að keppa við Chelsea og United í fjárhagslegum skilningi."

„Við skulum svo sjá til hvernig gengur á tímabilinu. Liverpool hélt Steven Gerrard sem var lykilatriði. Við erum enn með frábært lið."

„Það er vissulega viðkvæmt ástand þar sem við erum ekki í Meistaradeildinni. En þetta er samt sem áður stærsta félag Englands og það eru forréttindi að fá að spila á Anfield í hverri viku."

„Þannig lít ég á málin. Ég vil setja mér markmið og að koma Liverpool aftur á þann stall sem félagið á skilið er fallegt markmið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×