Enski boltinn

Barcelona hefur áhuga á Bale

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andoni Zubizarreta, yfirmaður íþróttamála hjá Barcelona, sagði í útvarpsviðtali í gær að félagið hefði undanfarið fylgst með Gareth Bale, leikmanni Tottenham.

Bale hefur slegið í gegn með þeim hvítklæddu á tímabilinu og skoraði þrennu í 4-3 tapi liðsins fyrir Evrópumeisturum Inter í Meistaradeild Evrópu fyrir tveimur vikum. Liðin mætast í Lundúnum í kvöld.

Auk Barca hefur Bale verið orðaður við Real Madrid, Inter og Manchester United en Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að ekki komi til greina að selja hann.

„Hann er athyglisverður knattspyrnumaður sem gæti passað vel í spænsku úrvalsdeildina," sagði Zubizarreta. „En ég tek það skýrt fram að ég hef ekki rætt við neinn um hann."

Bale skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Tottenham í vor en litlu mátti muna að hann hefði verið seldur til Nottingham Forest í janúar síðastliðnum. Hann kom til Tottenham frá Southampton árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×