Lífið

Einfaldari útgáfa af Jónsa í Höllinni

Jónsi hefur verið á ferð um allan heim en tónleikaferð hans lýkur í Laugardalshöll 29. desember.
Fréttablaðið/GVA
Jónsi hefur verið á ferð um allan heim en tónleikaferð hans lýkur í Laugardalshöll 29. desember. Fréttablaðið/GVA

„Sviðsmyndin hefur verið einfölduð aðeins en það er bara af praktískum ástæðum. Hún var náttúrulega svolítið stór og þung í umfangi sem er ekki þægilegt þegar menn eru að ferðast um heiminn," segir Kári Sturluson tónleikahaldari. Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær ætlar Jónsi að ljúka heimstónleikaferð sinni hér á Íslandi 29. desember næstkomandi í Laugardalshöll.

Sviðsmyndin hefur vakið mikla athygli en það er framleiðslu­fyrirtækið 59 Productions sem á heiðurinn af henni. „Fyrstu tónleikarnir voru í mars en síðan þá hefur þetta verið gert aðeins einfaldara í umfangi. Hún var svolítið óhagstæð," útskýrir Kári. Hann tekur þó fram að íslenskir tónleikagestir fái sömu sýningu og þeir amerísku og asísku en Jónsi kemur þaðan til Íslands. Að sögn Kára verður sviðsmyndin flutt með fraktskipi enda líður nokkur tími á milli tónleikanna.

Að sögn Kára eru milli 20 og 25 í hersveit Jónsa sem mætir hingað til Íslands til að setja þetta upp. Að sögn tónleikahaldarans kostar þetta skildinginn.

„Jónsi vildi ljúka tónleikaferðinni hér. Umfangið segir kannski ekki allt. Það liggur að baki þessu margra mánaða vinna og allt þetta sjónræna var tekið alveg sérstaklega upp fyrir tónleikaferðina."- fgg

Hægt er að kaupa miða á tónleikana hér á midi.is. Á heimasíðu Jónsa er hægt að hlusta á plötuna og horfa á myndbönd, meðal annars nýja myndbandið við lagið Animal Arithmetic.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×