Enski boltinn

Emmanuel Adebayor er hættur að spila fyrir landslið Tógó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Adebayor, fyrirliði landsliðs Tógó.
Emmanuel Adebayor, fyrirliði landsliðs Tógó. Mynd/AFP
Emmanuel Adebayor, fyrirliði landsliðs Tógó og leikmaður Manchester City, hefur ákveðið að hætta spila með landsliðinu en hann er enn að glíma við eftirmála skotárásarinnar á rútu liðsins á Afríkumótinu í Angóla í ársbyrjun.

Rúta Tógó varð fyrir hríðskotaárás tveimur dögum áður en Afríkukeppnin átti að hefjast og forustumenn þjóðarinnar ákváðu síðan að draga liðið úr keppni. Það hafði miklar afleiðingar, bæði fyrir keppnina en einnig fyrir framtíð landsliðs Tógó sem var dæmt í bann í næstu tveimur Afríkukeppnum.

„Í kjölfar árásinnar í janúar þar sem tveir landar mínir voru drepnir af hryðjuverkamönnum í Angóla, þá hef ég ákveðið að taka þá erfiðu ákvörðun að hætta að spila með landsliðinu," sagði Emmanuel Adebayor í yfirlýsingu.

„Við vorum bara fótboltamenn á leiðinni að fara spila fótbolta og koma fram fyrir þjóð okkar. Samt sem áður réðst á okkur fólk sem ætlaði sér að drepa okkur alla. Ég mun aldrei gleyma þessari stundu og ég vil aldrei upplifa slíkt aftur," sagði Adebayor í fyrrnefndri yfirlýsingu sem var gefinn út á vegum Manchester City.

Emmanuel Adebayor hefur leikið með landsliðinu frá árinu 2000 og hefur skorað 16 mörk í 38 landsleikjum fyrir Tógó. Hann er langþekktasti leikmaður liðsins. Adebayor hefur fundið taktinn á nýjan leik með Manchester City og hefur skorað alls fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×