Enski boltinn

Lim dregur til baka tilboð sitt í Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Auðkýfingurinn Peter Lim frá Singapúr hefur dregið til baka tilboð sitt í enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Lim opinberaði tilboð sitt fyrr í þessari viku eftir að sjórn félagsins hafði ákveðið að taka boði NESV, bandarísks eignarhaldsfélags sem einnig á hafnarboltaliðið Boston Red Sox.

Tilboð hljómaði upp á 300 milljónir punda en Lim bauð 320 milljónir auk 40 milljónir í leikmannakaup í janúar næstkomandi.

Lim sagði þó í yfirlýsingu að stjórn Liverpool hefði ekki haft áhuga á að ræða tilboð hans frekar, né heldur skoski bankinn RBS sem er stærsti lánardrottinn félagsins.

Söluferli Liverpool er þó í miklu uppnámi eftir að núverandi eigendur, Tom Hicks og George Gillett, fengu lögbannskröfu samþykkta á söluna til NESV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×