Íslenski boltinn

Baldur: Ekki verra að mæta toppliðinu til að sýna hvað við getum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Baldur í baráttunni í leik Stjörnunnar og KR.
Baldur í baráttunni í leik Stjörnunnar og KR. Fréttablaðið/Anton
"Ég hlakka til, við þurfum að sjá til þess að þeir fari að tapa einhverjum stigum," sagði Baldur Sigurðsson, leikmaður KR og fyrrum leikmaður Keflavíkur um stórleik liðanna í kvöld.

Leikið er á KR-vellinum klukkan 20 og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

KR er enn án sigurs í deildinni, liðið er við botninn með tvö stig eftir tvö jafntefli. Keflvíkingar eru aftur á móti á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

„Gengið okkar hefur ekki verið nógu gott hingað til. Við þurfum að fara að sýna eitthvað og það er fínt tækifæri til þess í kvöld. Það er ekkert verra að mæta toppliðinu til þess að sýna hvað við getum," sagði Baldur.

Hann hefur spilað alla þrjá leiki KR og hann skoraði mark liðsins í 2-1 tapi á heimavelli gegn Selfyssingum. Hann segir dagsskipunina einfalda.

„Við ætlum bara að vinna," segir hann og neitar því að stemningin í hópnum hafi beðið skaða eftir slæmt gengi í upphafi móts. „Þetta er flottur hópur, menn eru ekkert að grafa hausinn þó að gengið sé svona. Við berum höfuðið hátt og menn ætla að sýna það í kvöld," sagði Baldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×