Íslenski boltinn

Auðun Helgason: Verður að smella hjá okkur í dag og mun gera það

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Auðun Helgason og Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.
Auðun Helgason og Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Mynd/Heimasíða Grindavíkur
Það verður botnslagur í Grindavík í kvöld þegar Valsmenn koma í heimsókn. Grindvíkingar hafa hvorki unnið sér inn stig né skorað mark á meðan Valsmenn hafa gert tvö jafntefli og eru í tíunda sæti deildarinnar.

Auðun Helgason verður væntanlega í liði Grindavíkur í kvöld en þegar Vísir spjallaði við hann eftir hádegið var planið að taka góðan göngu- eða hjólatúr fyrir leikinn. „Ég hef gert þetta í nokkur ár,“ sagði Auðun sem hlakkar til leiksins.

„Við erum búnir að eiga ekki nógu góða leiki undanfarið. Leikurinn í kvöld er prófsteinn á liðið. Það er lítið að marka fyrsta leikinn, hann var eyðilagður eftir tvær mínútur af undirrituðum,“ sagði Auðun sem fékk rautt spjald og dæmt á sig víti gegn Stjörnunni.

„Reyndar eigum við mjög fínan seinni hálfleik gegn Keflavík en fáum ekkert út úr því. Við eigum góða kafla gegn Fram þar sem við áttum að skora en náum því ekki. Nú þurfum við að fara að spila eins og menn í 90 mínútur og skora,“ sagði varnarjaxlinn.

Hann segir að liðið eigi fullt inni. „Við höfum ekki náð almennilegum takti í liðið. Við erum með fullt af góðum leikmönnum en þetta þarf að smella í dag.“

„Það verður að gerast í dag og það mun gerast í dag,“ sagði Auðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×