Enski boltinn

Arteta getur ekki spilað með enska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arteta hefur dvalið í Bretlandi í fimm ár og á því rétt á breskum ríkisborgararétt. Hér er hann í leik með Everton.
Arteta hefur dvalið í Bretlandi í fimm ár og á því rétt á breskum ríkisborgararétt. Hér er hann í leik með Everton. Nordic Photos / Getty Images

Enska knattspyrnusambandið segir að Mikel Arteta geti ekki spilað með enska landsliðinu í framtíðinni þó svo að hann sé nú gjaldgengur fyrir breskan ríkisborgararétt.

„Eftir því sem við skiljum reglur FIFA þá á leikmaðurinn ekki kost á því að spila með enska landsliðinu," sagði talsmaður enska knattspyrnusambandsins í gærkvöldi.

Arteta er 28 ára gamall Spánverji en hefur aldrei spilað með spænska A-landsliðinu.

Hins vegar spilaði hann með yngri landsliðum Spánar og samkvæmt grein 18.1.a í reglugerð FIFA um þessi mál hefði hann þurft að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt þá - spænskan og breskan - til að mega skipta um landslið síðar á ferlinum. Þetta kemur fram í frétt Sky Sports um málið í dag.

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, mun hafa rætt lítillega við Arteta um málið en aldrei beðið enska knattspyrnusambandið um að kanna möguleikann á þessu frekar.

Áður hafði Craig Levein, landsliðsþjálfari Skotlands, bent á að heiðursmannasamkomulag ríki á milli þeirra fjögurra knattspyrnusambanda sem eru í Bretlandi að nota sér ekki smugur í regluverkinu til að fá leikmenn af öðru þjóðerni í sitt landslið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×