Enski boltinn

Rooney getur búist við fjandsamlegum móttökum á Goodison Park

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney í leik á móti Everton á Goodison Park.
Wayne Rooney í leik á móti Everton á Goodison Park. Mynd/AFP
Phil Jagielka, varnarmaður Everton og enska landsliðsins, hefur varað Wayne Rooney við því að hann muni fá fjandsamlegar móttökur þegar Manchester United heimsækir Everton á Goodison Park á laugardaginn.

Leikir Manchester United á Goodison Park eru alltaf erfiðir fyrir Wayne Rooney sem steig sín fyrstu spor með Everton áður en hann var seldur til United árið 2004. Nú munu stuðningsmenn Everton einnig minna hann á vandræðin í einkalífinu sem hafa flætt um ensku slúðurblöðin síðustu daga.

„Þetta gæti orðið líflegt. Wayne fær alltaf að heyra það á Merseyside og ég mun heldur ekki liggja á mínu. Það eru góðar líkur að honum verði slátrað í þessum leik," sagði Phil Jagielka sem segir að Wayne Rooney sjálfur láti líka mótherjana heyra það í sínum leikjum.

„Ég er samt viss um að Wayne ræður við þessar aðstæður. Hann er harður af sér og lætur fótboltann tala sínu máli. Hann er góður leikmaður og ég hef gaman af því að eiga við góða leikmenn. Maður verður alltaf að halda fullri einbeitingu allan tímann þegar maður mætir mönnum eins og Rooney," sagði Jagielka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×