Enski boltinn

Ancelotti: Ashley Cole er besti vinstri bakvörður í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole og Carlo Ancelotti.
Ashley Cole og Carlo Ancelotti. Mynd/AP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að Ashley Cole sé ekki á listanum yfir 23 bestu knattspyrnumenn heims fyrir árið 2010 af því að hann er varnarmaður. Ancelotti segir að Ashley Cole sé besti vinstri bakvörður í heimi og ætti að vera fyrirmynd fyrir alla upprennandi fótboltamenn.

„Það geta allir séð að Ashley Cole er besti vinstri bakvörður í heimi. Það er mjög erfitt fyrir varnarmenn að komast inn á listann fyrir Ballon d'Or verðlaunin því þau eru bara fyrir framherja og miðjumenn," sagði Carlo Ancelotti.

„Paolo Maldini átti skilið að vinna svona verðlaun á sínum ferli en hann fékk þau ekki þar sem að hann er varnarmaður," sagði Ancelotti.

„Cole spilaði frábærlega á síðasta tímabili, bæði varnarlega sem og með að skora og leggja upp mörk. Hann hleypur líka í stanslaust í 90 mínútur í öllum leikjum, því hann er léttur maður með frábært hlaupaþol. Það er eins og fylgjast með Sebastian Coe þegar hann var upp á sitt besta," sagði Ancelotti í léttum tón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×