Enski boltinn

Berbatov: Get ekki alltaf verið glottandi eins og vitleysingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov.
Dimitar Berbatov. Mynd/AFP
Dimitar Berbatov er staðráðinn í að reyna sanna sig fyrir Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, þótt að hann sé viss um að það verði keyptur nýr framherji á Old Trafford í sumar. Hann segist þó ekki geta breytt framkomu sinni inn á vellinum sem sumir túlka sem þunglyndi og leti.

„Það var eytt miklum peningum til að þess að kaupa mig hingað og væntingarnar til mín voru út úr þessum heimi. Ég hefði getað staðið mig betur á þessum tveimur tímabilum sem ég hef verið hjá klúbbnum en ég hefði líka getað staðið mig verr. Ég hef átt nokkrar ágætar stundir, varð meistari og vann deildarbikarinn. Við sjáum bara til hvað gerist á þriðja árinu," sagði Dimitar Berbatov.

„Ég lít kannski ekki út fyrir að vera ánægður á vellinum en ég er mjög ánægður. Ég get ekki alltaf verið glottandi eins og einhver vitleysingur," sagði Berbatov sem hefur skorað 21 mark í 64 deildarleikjum með Unired og alls 26 mörk í 86 leikjum í öllum keppnum.

„Það eru margar gagnrýnisraddir á Englandi en aðeins veikgeðja maður léti þær hafa áhrif á sig. Ég er ánægður, trúið mér. Ég sýni kannski ekki mikla tilfinningar en ég er mjög ánægður með að vera hjá stærsta félagi í heimi. Ég vil ekki fara neitt annað því ég kemst ekki hærra," sagði Búlgarinn sem er hættu í landsliðinu þrátt fyrir að vera aðeins 29 ára gamall.

Javier Hernández, 21 árs framherji frá Mexíkó er kominn til United sem þýðir að hjá félaginu eru sjö framherjar en hinir eru: Wayne Rooney, Dimitar Berbatov, Michael Owen, Federico Macheda, Mame Biram Diouf og Daniel Welbeck.

„Ég er viss um að félagið kaupir nýjan framherja en ég er tilbúinn í samkeppni og það er það sem skiptir mestu máli. Ég vil ekki fara og ætla að standa við minn samning," sagði Berbatov.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×