Fótbolti

Lothar Matthäus tekur við búlgarska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lothar Matthäus.
Lothar Matthäus. Mynd/AFP
Lothar Matthäus, fyrrum fyrirliði heimsmeistaraliðs Þjóðverja, verður næsti landsliðsþjálfari Búlgara en hann tekur við stöðunni af Stanimir Stoilov sem sagði af sér eftir að Búlgarir töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni EM á móti Englandi og Svartfjallalandi.

Matthäus hefur samþykkt eins árs samning með síðan möguleika á að framlengja hann um tvö ár. Hann mun stjórna liðinu í fyrsta sinn á móti Wales sem mun þá einnig tefla fram nýjum þjálfara.

„Við þurftum að fá erlendan þjálfara með góðan bakgrunn, þjálfara sem leikmennirnir okkar bera virðingu fyrir," sagði Borislav Mihailov, forseti knattspyrnusambands Búlgaríu.

Lothar Matthäus er orðinn 49 ára gamall en hann þjálfaði ungverska landsliðið með ágætum árangri á árunum 2004 til 2005 en hefur einnig þjálfað lið eins og Partizan Belgrad, Rapid Vín og Red Bull Salzburg.

Matthäus lék 150 landsleiki fyrir Þjóðverja á sínum tíma og var fyrirliði liðsins sem varð heimsmeistari árið 1990. Hann lék einnig yfir 300 leiki fyrir Bayern Munchen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×