Enski boltinn

Maðurinn sem uppgötvaði Bale ráðinn til Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Damien Comolli.
Damien Comolli. Nordic Photos / AFP

Liverpool tilkynnti í dag að félagið hefði ráðið Damien Comolli til starfa - manninn sem fékk Gareth Bale til Tottenham árið 2007.

Comolli var áður yfirmaður knattspyrnumála hjá Tottenham en hefur að undanförnu starfað hjá St. Etienne í Frakklandi.

Hann fær nú það hlutverk hjá Liverpool að koma auga á unga og efnilega leikmenn, í samstarfi við Roy Hodgson knattspyrnustjóra. Þetta kemur fram á heimasíðu Liverpool í dag.

John Henry, eigandi Liverpool, og Hodgson fagna báðir ráðningunni. „Ég hlakka til að starfa með Damien en ég hef þekkt hann í mörg ár. Við erum að fara af stað með spennandi verkefni hjá félaginu og hann hefur mikið fram að færa."

Þá er einni rætt við Comolli sem rifjaði upp þegar hann sá Bale fyrst spila.

„Þegar ég sá hann fyrst var ég algjörlega dolfallinn. Strax þá sýndi hann hvað í honum bjó. Hann var sterkur og bjó yfir mikilli tækni, sjálfstrausti til að fara í návígi við hvern sem er, hraða, frábærum vinstri fóti og vinnusemi. Hann var með allan pakkann."

„Ég man að ég hugsaði með mér að ég hefði séð hinn nýja Paolo Maldini. Tottenham vill gera allt sem þeir geta til að halda Bale en ég veit að í sumar sýndu mörg stórlið honum áhuga."

„Ef Tottenham ætlar sér stóra hluti í framtíðinni verða þeir að halda Bale og þátttaka þeirra í Meistaradeildinni ætti að hjálpa til í þeirri baráttu."

Bale hefur slegið í gegn með Tottenham á leiktíðinni og var frábær þegar að liðið vann 3-1 sigur á Evrópumeisturum Inter á heimavelli í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×