Enski boltinn

Mancini: Set annaðhvort Jó í liðið eða spila sjálfur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jo í leik með Manchester City.
Jo í leik með Manchester City. Mynd/GettyImages
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, gæti þurft að stilla Jó upp í framlínu liðsins á móti Blackburn Rovers í dag þar sem að þrír framherjar liðsins, Carlos Tevez, Emmanuel Adebayor og Mario Balotelli, eru allir meiddir.

Mario Balotelli er frá næstu sex vikurnar en Carlos Tevez og Emmanuel Adebayor fara í lokaskoðun í dag til að athuga hvort þeir geti spilað leikinn sem fer fram í Manchester klukkan 14.00 í dag.

„Ég hef aðeins Jó og ef hann er ekki klár þá þarf ég bara að spila sjálfur," sagði Roberto Mancini á blaðamannafundi. „Við erum búnir að vera mjög óheppnir, Adebayor fékk högg á æfingu síðasta laugardag, Carlos er meiddur og Balotelli hefur átt mjög erfiða byrjun í Englandi," sagði Mancini.

Jó er 23 ára Brasilíumaður sem kom til Manchester City frá CSKA Moskvu fyrir 18 milljónir punda í júlí 2008. Hann skoraði 3 mörk í 20 leikjum fyrir Mark Hughes en skoraði önnur 7 mörk í láni hjá Everton. Jó var líka lánaður til tyrkneska liðsins Galatasaray en var sendur til baka eftir vandræði utan vallar sem hafa sett svolítinn svip á hans leikmannaferil hingað til.

„Ég hef vitað af Jó síðan að ég var að stýra Internazionale. Við mættum þá CSKA Moskvu í Meistaradeildinni og hann skoraði í báðum leikjunum í riðlakeppninni á móti okkur. Það er mjög gott fyrir ungan leikmann að skora tvö mörk á móti Inter," sagði Mancini.

„Hann hefur allt til alls til að verða toppleikmaður og hann á enn möguleika á að bæta sig því hann er ungur ennþá. Ég vildi aldrei láta hann fara og ég vona að hann geti skorað mörk fyrir okkur," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×