Enski boltinn

Fulham hafnaði öðru tilboði Arsenal í Mark Schwarzer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Schwarzer í leik á móti Þjóðverjum á HM í sumar.
Mark Schwarzer í leik á móti Þjóðverjum á HM í sumar. Mynd/AFP
Fulham hefur hafnað öðru tilboði Arsenal í ástralska markvörðinn Mark Schwarzer samkvæmt frétt á Guardian í dag. Schwarzer hefur sjálfur lýst yfir miklum áhuga á því að gerast leikmaður hjá Arsene Wenger.

Arsenal bauð tvær milljónir punda í Mark Schwarzer i vor og þeir hafa greinilega ekki náð að hækka nýja tilboðið það mikið að Fulham sé tilbúið að láta markvörð sinn frá sér.

Mark Schwarzer er 37 ára gamall og á tvö ár eftir af samningi sínum við Fulham. Þetta gæti verið síðasta tækifærið hjá honum að komast að hjá stóru félagi en Mark Hughes, stjóri Fulham, hefur gefið það út að hann vilji ekki selja markvörðinn sinn.

Manuel Almunia og Lukasz Fabianski hafa báðir gert ótal mistök í marki Arsenal og það hefur verið vitað að Arsenal er búið að vera að leita sér að markverði í allt sumar.

Mark Schwarzer er samt ekki eini markvörðurinn á óskalistanum hjá Arsene Wenger er þar eru víst líka markmenn eins og Maarten Stekelenburg hjá Ajax og Shay Given hjá Manchester City.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×