Enski boltinn

Bendtner og Walcott gætu spilað með Arsenal um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bendtner gæti spilað með Arsenal um helgina. Hann hefur ekkert spilað síðan á HM í sumar.
Bendtner gæti spilað með Arsenal um helgina. Hann hefur ekkert spilað síðan á HM í sumar. Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir góðar líkur á því að þeir Nicklas Bendtner og Theo Walcott gætu spilað með Arsenal gegn Birmingham á morgun.

Þó er talið ólíklegt að Cesc Fabregas verði búinn að ná sér af sínum meiðslum og Wenger reiknar ekki með að hann muni spila um helgina.

Bendtner hefur ekkert spilað á tímabilinu en hann hefur átt við þrálát nárameiðsli að stríða. Hann spilaði þó með Dönum á HM í sumar.

„Nicklas hefur sýnt hvað hann getur af og til síðan í nóvember í fyrra. En vegna meiðsla sinna hefur hann ekki sýnt neinn stöðugleika. Við höfum ekki séð til hins sanna Nicklas Bendtner í langan, langan tíma," sagði Wenger.

„Hann hefur ekki verið svo nálægt sínu besta lengi vel. Hann átti í miklum vandræðum með nárameiðslin en þau eru úr sögunni í dag."

„Theo gæti einnig komið við sögu á laugardaginn. Hann mun taka þátt í venjulegri æfingu á morgun [í dag] og gæti vel verið að hann verði í leikmannahópnum."

„Það er mjög stutt í að Cesc verði klár en það er ólíklegt að hann spili á morgun. Hann á möguleika á að ná leiknum á þriðjudaginn," bætti Wenger við en þá mætir Arsenal liði Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu.

Wenger sagði einnig að Kieran Gibbs væri einnig búinn að ná sér af sínum meiðslum og að hann verði í leikmannahópnum um helgina.

Hins vegar eru enn margir frá hjá Arsenal. Þeirra á meðal má nefna Robin van Persie, Tomas Vermaelen, Bacary Sagna og Manuel Almunia.

„Sagna og Vermaelen þurfa tíu daga í viðbót, Almunia þarf aðeins nokkra daga en það er eitthvað lengra í Van Persie."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×