Enski boltinn

Þrenna Balotelli kom City á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fimm leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni og ber þar hæst að Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 4-0 sigur á Aston Villa á heimavelli.

City er með 38 stig en Manchester United með 37 og á þar að auki þrjá leiki til góða. United mætir Birmingham í kvöld og getur þá endurheimt toppsætið.

City var ekki nema 27 mínútur að klára Aston Villa en liðið skoraði þá þrjú mörk. Fyrst Mario Balotelli úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur, þá Joleon Lescott með skalla áður en Balotelli skoraði aftur af stuttu færi eftir undirbúning David Silva.

Balotelli innsiglaði svo sigurinn og þrennu sína með marki úr vítaspyrnu í síðari hálfleik eftir að brotið var á Adam Johnson. Kannski ekki glæsilegasta þrenna í heimi frá Balotelli (tvær vítaspyrnur og eitt pot) en þrenna engu að síður.

Leikmenn Tottenham fagna.Nordic Photos / Getty Images
Tottenham kom sér upp í fjórða sæti deildarinnar með góðum 2-0 sigri á Newcastle. Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Aaron Lennon að skora með laglegu skoti eftir sendingu frá Younes Kaboul á 57. mínútu.

En aðeins níu mínútum síðar fékk Kaboul að líta rauða spjaldið fyrir að skalla Cheick Tiote, leikmann Newcastle. Það kom ekki að sök þar sem að Gareth Bale skoraði annað mark Tottenham með föstu skoti eftir glæsilegan sprett upp vinstri kantinn. Dæmigert Bale-mark.

Sigur Tottenham þýðir að Englandsmeistarar Chelsea eru ekki lengur í hópi fjögurra efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa verið á toppnum fyrir ekki svo löngu síðan.

Aston Villa er hins vegar í frjálsu fallli í deildinni og komið niður í fimmtánda sæti deildarinnar. Liðið hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum og er farið að hitna undir Gerard Houllier, stjóra liðsins.

Chris Baird skorar annað marka sinna í dag.Nordic Photos / Getty Images
Fulham vann góðan sigur á Stoke, 2-0, þar sem að Norður-Írinn Chris Baird fór á kostum og skoraði bæði mörkin með föstum langskotum á fyrstu tíu mínútum leiksins, það síðara beint úr aukaspyrnu. Þetta var fyrsti sigur Fulham í síðustu níu leikjum sínum og andar stjóri liðsins, Mark Hughes, sjálfsagt léttar í dag. Þetta var þar að auki fyrsti útisigur Fulham í 27 leikjum, síðan í ágúst 2009.

Eiður Smári Guðjohnsen sat sem fyrr á varamannabekk Stoke og kom ekki við sögu. Sóknarmennirnir Ricardo Fuller og Tuncay voru einnig á bekknum hjá Stoke og komu báðir inn á sem varamenn, sem og Marc Wilson.

Stoke hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum en virðist það engu máli skipta - Tony Pulis sér greinilega ekki ástæðu til að nota Eið Smára eins og er.

Króatinn Nikola Kalinic var áberandi í sigri Blackburn á West Brom. Hann skoraði tvö fyrstu mörk Blackburn en fékk svo að líta beint rautt spjald á 62. mínútu fyrir ljóta tæklingu á Paul Scharner.

DJ Campbell fagnar marki í dag.Mynd/AP
DJ Campbell skoraði svo bæði mörk Blackpool í góðum 2-0 útisigri á Sunderland. Blackpool kom sér þar með upp í áttunda sæti deildarinnar en Sunderland er í því sjöunda. Liðið á þar að auki 2-3 leiki til góða á mörg önnur lið í deildinni.

Campbell er búinn að skora fimm mörk á tímabilinu en þau hafa öll komið á útivelli.

Úrslit dagsins:

Stoke - Fulham 0-2

0-1 Chris Baird (4.)

0-2 Chris Baird (10.)

West Brom - Blackburn 1-3

0-1 Nikola Kalinic (3.)

1-1 Jerome Thomas (17.)

1-2 Nikola Kalinic (53.)

1-3 Mame Biram Diouf (62.)

Rautt spjald: Nikola Kalinic, Blackburn (62.)

Manchester City - Aston Villa 4-0

1-0 Mario Balotelli, víti (8.)

2-0 Joleon Lescott (13.)

3-0 Mario Belotelli (27.)

4-0 Mario Balotelli, víti (55.)

Tottenham - Newcastle 2-0

1-0 Aaron Lennon (57.)

Rautt spjald: Younes Kaboul (66.)

Sunderland - Blackpool 0-2

0-1 DJ Campbell (50.)

0-2 DJ Campbell (90.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×