Enski boltinn

Diego Maradona er að sjálfsögðu orðaður við Fulham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona á Craven Cottage fyrr í vetur.
Diego Maradona á Craven Cottage fyrr í vetur. Mynd/AP
Það er orðin óskrifuð regla í alþjóðafótboltanum að þegar starf losnar þá er argentínska goðsögnin Diego Maradona orðaður við það. Mark Hughes er undir mikill pressu í stjórastólnum hjá Fulham eftir slæmt gengi að undanförnu og þrátt fyrir að hann sé enn í starfi þá telja ítalskir miðlar að Maradona gæti orðið eftirmaður hans.

Enskir fjölmiðlar skrifa um það í morgun að Mark Hughes verði næsti stjórinn í ensku úrvalsdeildinni til þess að vera rekinn en ítölsku fjölmiðlarnir ganga einu skrefi lengra og hafa orðað Maradona við Fulham-liðið. Það vakti mikla athygli fyrr í vetur þegar Maradona mætti á Craven Cottage til þess að horfa á Fulham tapa 1-4 á móti Manchester City.

Maradona var einnig orðaður við Blackburn Rovers þegar Sam Allardyce var rekinn á dögunum. Úr því varð ekkert eins og hefur verið tilfellið í kringum allar þjálfarastöðurnar sem Maradona hefur verið orðaður við síðan að hann hætti sem þjálfari argentínska landsliðsins.

Mark Hughes stýrir Fulham á móti Stoke í kvöld og tap í þeim leik gæti þýtt endalok hans á Craven Cottage. Fulham hefur ekki náð að vinna í síðustu átta leikjum og er komið niður í fallsæti í deildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×