Enski boltinn

Avram Grant: Stoltur af því að vera orðinn stjóri West Ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Avram Grant þakkar stuðningsmönnum Portsmouth fyrir stuðninginn í lokaleiknum á Wembley.
Avram Grant þakkar stuðningsmönnum Portsmouth fyrir stuðninginn í lokaleiknum á Wembley. Mynd/AP
Avram Grant var í morgun ráðinn sem stjóri enska úrvalsdeildarliðsins West Ham eins og allir fjölmiðlar í Englandi voru búnir að leiða líkum að í gær. Avram Grant tekur við af Gianfranco Zola sem rétt náði að bjarga liðinu frá falli á síðasta tímabili.

David Sullivan, annar eiganda West Ham liðsins tilkynnti formlega um nýja stjórann á blaðamannafundi í morgun. „Ég er mjög ánægður með að geta boðið Avram velkominn til West Ham og er ég er viss um að hann nær góðum árangri," sagði Sullivan.

„Við höfum tekið okkur góðan tíma í að ráða mann í brúnna og teljum að við séum komnir með rétta manninn í stöðuna. Það er mikil ástæða til bjartsýni á Upton Park nú þegar Avram er mættur og nýir leikmenn eiga eftir að bætast við hópinn," sagði Sullivan.

Gianfranco Zola var rekinn frá liðinu eftir tímabilið en þar endaði West Ham einu sæti frá falli og var í miklum vandræðum allt tímabilið. Grant gerði á sama tíma flotta hluti undir erfiðum kringumstæðum með Hermann Hreiðarsson og félaga í Portsmouth. Liðið fór meðal annars alla leið í bikarúrslitaleikinn en gjaldþrotið átti síðan aðal þáttinn í því að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er stoltur af því að vera orðinn stjóri West Ham og mér er mikill heiður sýndur með þessu trausti. Þetta er spennandi verkefni og ég er tilbúinn í að gera mitt besta," sagði Avram Grant. Þetta verður þriðja enska liðið sem hann stýri en hann stjórnaði einnig Chelsea eftir að Jose Mourinho var rekinn tímabilið 2007 til 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×