Innlent

„Þetta var illa lukkað kosningafyrirkomulag“

Boði Logason skrifar
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor
„Þetta er versta kjörsókn í um það bil hundrað ár á landsvísu," segir Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor. Hann segir nokkrar ástæður geta verið fyrir því að kjörsóknin í kosningunum í gær hafi verið eins slök og raun ber vitni. En kjörsókn á öllu landinu var tæplega 37 prósent.

Gunnar Helgi segir að í nútíma stjórnmálum hafi ekki verið haldnar kosningar með álíka lélega kjörsókn. Hann telur að ástæðurnar gætu verið nokkrar. „Ein er sú, að þetta fyrirbæri stjórnlagaþing er umdeilt. Sumir töldu að þetta væri ekki forgangsverkefni á meðan aðrir sögðu það mikilvægt. Og það er allt í lagi að menn deili um það. Einhverjir höfðu meiri áhuga en aðrir."Mikill kostnaður fyrir kjósendur


Einnig segir Gunnar Helgi að kosningafyrirkomulagið hafi ekki verið vel heppnað. „Undirbúningsvinnan var ekki nægilega vönduð og kosningafyrirkomulagið var flókið. Það gerði það að verkum að kosningabaráttan var ómarkviss. Það var líka mikill kostnaður í tíma fyrir kjósendur, sem þurftu að leggja mikið á sig til að kjósa. Þetta tók langan tíma, það er enginn vafi á því að það er hluti af skýringunni. Þetta var illa lukkað kosningafyrirkomulag."

Kjósendur þreyttir

Gunnar Helgi nefnir einnig að hugsanlega hafi það eitthvað að segja að stjórnlagaþingið hafi verið ráðgefandi. Þá hafi jafnvel þreyta verið í kjósendum en þrjár kosningar hafa verið á landsvísu á árinu. Fyrst var þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave í mars, sveitarstjórnarkosningar í maí og í gær stjórnlagaþingskosningar. „Það kann að vera að ákveðin kosningaþreyta hafi verið í fólki. Alþjóðleg reynsla sýnir að fleiri og þéttari kosningar hafi áhrif á þátttökuna. Það kann að vera hluti af skýringunni," segir Gunnar Helgi að lokum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.