Fótbolti

Desailly vill að Evra fái tveggja mánaða bann

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Marcel Desailly.
Marcel Desailly. AFP
Patrice Evra á að fara í tveggja mánaða leikbann. Þetta er mat Marcel Desailly sem bætist þar með í hóp fyrrum leikmanna Frakka til að gagnrýna fyrirliðann.

Eins og vitað er fór Evra fyrir leikmönnum Frakka þegar þeir ákváðu að fara í verkfall á meðan á HM stóð. Hann reifst einnig heiftarlega við starfsmann knattspyrnusambandsins.

Desailly spilaði 116 landsleiki og gagnrýnir Evra líkt og Lilian Thuram gerði nýverið.

"Forseti sambandsins og þjálfarinn hafa þegar tekið á sig sína ábyrgð," sagði Desailly en forsetinn sagði af sér og Domenech hætti. Það var reyndar ákveðið fyrir HM og Laurent Blanc tók við.

Bæði Thuram og Desailly spiluðu í vörn Frakka með Blanc.

"Evra á líka að taka út sína refsingu. Fyrirliðinn gerði mistök og hann þarf að taka ábyrgð á þeim."

"Hann ákvað að æfa ekki áður en hann áttaði sig og baðst afsökunar. Hann á samt að fara í bann, í það minnsta tímabundið."

"Hann er frábær leikmaður og besti vinstri bakvörðurinn sem við eigum, en það ætti að banna honum að spila í tvo mánuði af því hann á að sýna fordæmi. Framkoma hans hafði áhrif á ímynd Frakka um allan heiminn," sagði Desailly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×