Enski boltinn

Alex Ferguson reiður í leikslok: Við köstuðum þessu frá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var mjög reiður út í sína menn eftir 3-3 jafnteflið við Everton í dag þar sem liðið fékk á sig tvö mörk í uppbótartíma þegar virtist stefna í góðan sigur liðsins.

„Fótboltinn getur farið svona með þig. Við vorum með góð tök á þessum leik en við köstuðum þessu frá okkur," sagði Sir Alex Ferguson eftir leikinn.

„Þetta er búið að vera svona í tveimur síðustu útileikjum okkar því við fengum á okkur jöfnunarmark á móti Fulham þegar tvær mínútur voru eftir. Við fengum færi til að ganga frá leiknum en kláruðum þau ekki," sagði Ferguson.

„Við spiluðum góðan fótbolta á köflum í þessum leik," sagði Ferguson sem var ánægður með búlgarska framherjann. „Berbatov var okkar besti maður að mínu mati. Hann var algjörlega frábær í dag og það fór fyrir lítið af því að við gáfum frá okkur tvö stig," sagði Alex Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×