Íslenski boltinn

Einar: Það er mjög ólíkt okkur að vera gefa mörk eftir horn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Pétursson gengur hér blóðugur af velli í leik með Fylki fyrr í sumar.
Einar Pétursson gengur hér blóðugur af velli í leik með Fylki fyrr í sumar. Mynd/Pjetur
Einar Pétursson lék vel í Fylkisvörninni í kvöld og skoraði að auki seinna mark liðsins. Hann var þó langt frá því að vera ánægður í leikslok enda tryggðu Framarar sér 2-2 jafntefli með því að skora tvö mörk eftir horn á lokamínútunum.

„Þetta var bara bull hjá okkur í þessum hornum í lokin. Ég er brjálaður út af þessu. Þetta var einbeitingarleysi út í gegn og á bara ekki að gerast. Við fáum eiginlega aldrei mark á okkur úr föstum leikatriðum og síðan gefum við allt í einu tvö slík mörk núna. Ég skil þetta ekki," sagði Einar eftir leikinn.

„Við ætluðum okkur toppsætið og ég veit ekki hvort menn séu eitthvað hræddir við að fara í toppsætið," sagði Einar svekktur en með sigri hefði Fylkir farið upp fyrir Keflavík á toppi Pepsi-deildarinnar.

„Við bökkuðum of mikið í seinni hálfleik í staðinn fyrir að halda boltanum og vera rólegir. Við vorum alltaf kýla fram. Hægt og rólega vorum við alltaf að bakka og bakka. Þeir náðu því að auka pressuna á okkur sem var bara vitleysa en þetta gerist stundum," sagði Einar.

„Þeir skapa ekki neitt fyrir utan eitt skallafæri í fyrri hálfleik. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá gefum við þeim tvö mörk úr föstum leikatriðum. Við erum gríðarlega sterkir í föstum leikatriðum þannig að það er mjög ólíkt okkur að vera gefa mörk eftir horn," sagði Einar.

„Við ætluðum okkur þrjú stig og að fara á toppinn og það er glatað að tapa því," sagði Einar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×