Enski boltinn

Arnór: Tottenham vill halda Eiði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Tottenham.
Eiður Smári í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, segir í samtali við breska fjölmiðla í dag að Tottenham vilji halda Eiði Smára fyrir næsta tímabil.

Eiður var í morgun orðaður við Aston Villa en hann hefur verið í láni hjá Tottenham eftir áramót frá AS Monaco í Frakklandi. Þar á hann eitt ár eftir af samningi sínum.

„Það er erfitt að segja eitthvað um þetta eins og er," sagði Arnór. „Í fyrsta lagi vill Tottenham halda honum. Ég sá fréttirnar um Aston Villa en ég hef ekkert heyrt frá því félagi."

„Hann hefur notið sín hjá Tottenham. Það var erfitt fyrir Eið að koma inn í liðið á miðju tímabili og ég held að hann vilji eiga gott undirbúningstímabil og spila með liðinu yfir heilt tímabil."

„Ég veit ekki hvers konar samning Eiður myndi skrifa undir, það kæmi mér ekki á óvart ef það væri lánssamningur til eins árs. En maður veit aldrei og þetta hefur ekki verið ákveðið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×