Erlent

Sendiherra Tyrkja í Svíþjóð kallaður heim

Frá Stokkhólmi í Svíþjóð.
Frá Stokkhólmi í Svíþjóð.
Sendiherra Tyrklands í Svíþjóð hefur verið kallaður heim vegna þess að sænska þingið samþykkti í gær þingsályktun þess efnis að þjóðarmorð hafi verið framið á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni.

Armenía sem og fjölmargir sagnfræðingar halda því fram að Tyrkir hafi myrt allt að 1,5 milljónir Armena í fyrri heimsstyrjöldinni. Það hafa Tyrkir hins vegar aldrei viðurkennt og fullyrt að mun færri Armenar hafi látist. Þeir hafa jafnframt bent á að fjölmargir Tyrkir hafi fallið í átökunum sem brutust út eftir að Armenar stilltu sér upp við hlið Rússa. Meira en 20 ríki telja aftur á móti að Tyrkir hafir framið þjóðarmorð á Armenum.

Sænska þingið samþykkti í gær þingsályktunartillögu þess efnis með naumum meirihluta eða með 131 atkvæði gegn 130. 88 þingmenn sátu hjá en það var stjórnarandstaðan sem lagði tillöguna fram. Tyrknesk stjórnvöld brugðust ókvæða við og skipuðu sendiherra sínum í Svíþjóð að halda strax heim.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir að atkvæðagreiðslan hafi verið mistök. Hann ítrekaði að stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart Tyrklandi og inngöngu landsins í ESB væri óbreytt.

Stutt er síðan að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti samskonar tillögu einnig með naumum meirihluta. Sendiherra Tyrkja í Washington var samstundis kallaður heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×