Enski boltinn

Roy Hodgson býst ekki við að Liverpool berjist um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool. Mynd/Getty Images
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, hefur ekki sett stefnuna á það að lið hans berjist um enska meistaratitilinn á þessu tímabili þar sem að hann hefur ekki haft nógu mikinn tíma til að vinna með liðið. Roy Hodgson tók við stjórastöðunni af Rafael Benitez í sumar og fyrsti leikur liðsins á tímabilinu er gegn Arsenal á Anfield í dag.

„Við erum bara búnir að fá sjö æfingar með öllum lykilmönnum liðsins og á þeim er nokkuð augljóst að við erum langan veg frá því að vera lið eins og Manchester United, Arsenal eða Chelsea," sagði Hodgson.

„Ég ætla ekki eins sinni að þykjast halda það að sex eða sjö æfingar geti skilað okkur því liði sem við viljum vera. Það væri fáranlegt að ætlast til þess að við séum komnir í okkar besta leikform," sagði Hodgson en hann ætlar greinilega að tala niður væntingarnar hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Liverpool endaði í sjöunda sæti í fyrra sem var versti árangur liðsins í ellefu ár og þetta verður í fyrsta sinn síðan tímabilið 2003-04 sem liðið tekur ekki þátt í Meistaradeild Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×