Enski boltinn

Slysalegt sjálfsmark Pepe Reina tryggði Arsenal stig á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole fær hér rauða spjaldið.
Joe Cole fær hér rauða spjaldið. Mynd/AP
Tíu menn Liverpool voru aðeins nokkrum mínútum frá því að vinna sigur á Arsenal í fyrsta deildarleiknum sínum undir stjórn Roy Hodgson þegar liðin mættust á Anfield í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Pepe Reina, markvörður Liverpool, varð fyrir því óláni að missa boltann í netið á 90. mínútu eftir að Marouane Chamakh hafði sett boltann í stöngina. Markið kom eftir mikla pressu frá Arsenal á síðustu mínútum leiksins.

Liverpool þurfti að leika manni færri allan seinni hálfeikinn eftir að Joe Cole var rekinn útaf í lok fyrri hálfleiksins en komst engu að síður í 1-0 í upphafi seinni hálfleiks.

Joe Cole fékk rautt spjald á lokamínútu fyrri hálfleiks fyrir harða tæklingu á Laurent Koscielny. Brotið leit illa út en rauða spjaldið var samt mjög strangur dómur. Koscielny var borinn af velli á börnum en hélt síðan áfram leik eftir hálfleikinn.

David N'Gog kom Liverpool yfir á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þegar hann afgreiddi sendingu Javier Mascherano inn í teiginn með frábærum hætti upp í markhornið.

Það leit út fyrir að ætlaði að verða sigurmarkið í leiknum en á 90. mínútu bar pressa Arsenal árangur. Tomás Rosicky gaf boltann fyrir, Marouane Chamakh var á undan Pepe Reina í boltann sem fór í stöngina. Þegar Reina ætlaði síðan að grípa frákastið missti hann boltann hinsvegar frá sér og yfir marklínuna.

Laurent Koscielny fór síðan sömu leið og Joe Cole í uppbótartímanum þegar hann fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×