Enski boltinn

Peter Crouch ekki lengur hæstur í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Zigic í leik með Valencia.
Nikola Zigic í leik með Valencia. Mynd/GettyImages
Birmingham keypti í dag serbneska framherjann Nikola Zigic frá spænska liðinu Valencia en kaupverðið er um sex milljónir punda. Zigic gerði fjögurra ára samning við enska liðið en hann fann sig aldrei hjá Valenica eftir að hafa gert fína hluti hjá Rauðu Stjörnunni í Belgrad og Racing Santander.

Nikola Zigic er 29 ára og 202 sm framherji sem var valinn besti fótboltamaður Serbíu 2003, 2005 og 2006. Hann verður í eldlínunni með Serbíu á HM í sumar en alls hefur hann skorað 16 mörk í 42 landsleikjum.

Koma Nikola Zigic í ensku úrvalsdeildina þýðir að enski landsliðsmaðurinn Peter Crouch er ekki lengur hæsti maðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Crouch er nefnilega "aðeins" 201 sm á hæð.

Alex McLeish, stjóri Birmingham, er líka búinn að kaupa markvörðinn Ben Foster frá Manchester United og fá spænska miðjumanninn Enric Valles á frjálsri sölu. McLeish ætlar að reyna að byggja á góðu tímabili í vetur þar sem liðið endaði í 9. sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×