Innlent

Götusmiðjan vill bætur líkt og Árbót

Leiðir þeirra Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, og Guðmundar Týs Þórarinssonar, fyrrverandi forstöðumanns Götusmiðjunnar, skildu síðastliðið sumar þegar Götusmiðjunni var lokað.
Leiðir þeirra Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, og Guðmundar Týs Þórarinssonar, fyrrverandi forstöðumanns Götusmiðjunnar, skildu síðastliðið sumar þegar Götusmiðjunni var lokað.

Hugsanlegt er að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með greiðslu 30 milljóna króna bóta til meðferðarheimilisins Árbótar í Þingeyjarsýslu. Lögfræðingur Götusmiðjunnar segir að samið hafi verið við skjólstæðing sinn á allt öðrum forsendum í sumar og ætlar með málið lengra á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í lok júnímánaðar var þjónustusamningi Barnaverndarstofu við meðferðarheimilið Götusmiðjuna rift vegna ásakana um að Guðmundur Týr Þórarinsson (Mummi) hefði haft í hótunum við börn sem voru í vistun á heimilinu. Hinn 15. júlí var síðan undirritaður samningur um starfslok heimilisins, sem fól í sér að Götusmiðjan fékk tæpar 20 milljónir í bætur frá Barnaverndarstofu sem auk þess lagði út um 10 milljónir vegna ógreiddra launa starfsfólks Götusmiðjunnar.

Gísli Kr. Björnsson, lögfræðingur Götusmiðjunnar, telur að óeðlilega hafi verið staðið að lokun Götusmiðjunnar. Meintar hótanir Guðmundar Týs í garð ungmennanna hafi til að mynda aldrei verið kærðar til lögreglu þrátt fyrir að þess hafi verið krafist af Guðmundi Tý sjálfum. Af þeim sökum hafi aldrei verið skorið úr því hvort ásakanirnar hafi átt við rök að styðjast eða ekki.

Þetta vekur upp spurningar því 1. ágúst barst yfirlýsing frá Guðmundi Tý og Braga Guðbrandssyni um að sættir hefðu náðst. Í yfirlýsingunni kom fram að samkomulagið um starfslok Götusmiðjunnar hefði verið gert í góðri sátt og fæli í sér farsælar málalyktir fyrir alla aðila. Gísli segir að forsendan fyrir starfslokasamningnum hafi verið sú að Guðmundur Týr skrifaði undir þessa yfirlýsingu þótt það hafi verið honum þvert um geð.

Gísli segir að í ljósi umfjöllunar Fréttablaðsins undanfarna daga af því hvernig staðið hafi verið að samningum um starfslok meðferðarheimilisins Árbótar hyggist Guðmundur Týr nú leita réttar síns. Samningurinn við Árbót hafi verið gerður á nákvæmlega sama tíma og verið var að semja um starfslok Götusmiðjunnar. Aðferðin við samningana hafi hins vegar verið gjörólík.

„Mér finnst þetta óeðlileg stjórnsýsla af ráðherrunum og Barnaverndarstofu, þó af ólíkum ástæðum,“ segir Gísli. „Mér finnst óeðlilegt að ráðherrarnir blandi sér inn í annað málið en ekki hitt. Þeir hefðu í rauninni átt að stíga inn í bæði málin vegna þess að það voru sömu aðstæður uppi í málunum. Að sama skapi finnst mér óeðlilegt af Braga að klára samninginn við okkur vitandi vits að það er verið að gera öðruvísi samning við annan aðila í máli sem er alveg eins. Jafnræðisreglan er því augljóslega ekki virt.“

Gísli segist hafa kallað eftir því að Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, gengi í málið. Það hafi verið gert strax í lok júní. Ekkert svar hafi borist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Spurður hvort Árna Páli hafi verið stætt á því að blanda sér í málið, þar sem Barnaverndarstofa sé sjálfstæð stjórnsýslustofnun segir Gísli: „Af hverju virti hann það þá ekki í máli Árbótar?“ Árni Páll hafi verið farinn að beita sér í máli Árbótar löngu áður en málið hafi formlega verið komið á forræði félagsmálaráðuneytisins.

„Það var full ástæða fyrir Árna Pál að stíga inn í samningaviðræðurnar við okkur,“ segir Gísli því samningaviðræðurnar við Barnaverndarstofu hafi lítið gengið.

Gísli segir að afgreiðsla stjórnvalda á Árbótarmálinu annars vegar og Götusmiðjumálinu hins vegar endurspegli brotalamir innan stjórnsýslunnar. Í Árbótarmálinu hafi ráðherrar beitt sér mjög ákveðið fyrir því að niðurstaða næðist en ekki í Götusmiðjumálinu. Árbót hafi af þeim sökum fengið greiddar hærri bætur því auk þess að fá 48 milljónir fyrir að starfa út sex mánaða uppsagnarfrest hafi heimilið fengið 30 milljónir króna í bætur. Götusmiðjan hafi þurft að hætta strax starfsemi og því ekki fengið greiddan uppsagnarfrest heldur aðeins tæpar 20 milljónir króna í bætur.

Á grundvelli alls þessa telur Gísli ljóst að jafnræðisreglan hafi ekki verið virt. Hann geti ekki betur séð en að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með þessari ólíku málsmeðferð.

„Eftir helgi munum við skjóta málinu til umboðsmanns Alþingis og senda öllum þingmönnum erindi þess efnis að mál Götusmiðjunnar verði tekið upp aftur,“ segir Gísli. „Mér finnst ekkert óeðlilegt við það að Alþingi hlutist til um það að réttindi þegnanna séu virt af stjórnsýslunni.“

Gísli segir ekki ákveðið hversu háar bætur Götusmiðjan muni fara fram á verði málið tekið upp á ný.

„Eðlilegt er að kröfur Árbótar um fastan útlagðan kostnað séu hafðar til viðmiðunar og líka það að það var maður að hætta starfsemi sem hann hafði sinnt í tólf ár.“

Spurður hvort ekki sé nauðsynlegt að fara í skaðabótamál fyrir dómstólum til að sækja bætur segir Gísli: „Ef við fáum eins fyrirgreiðslu hjá þingmönnum og ráðherrum og Árbót fékk þá á þess ekki að þurfa.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×