Enski boltinn

Rekinn fyrir að afgreiða með gulan og grænan trefil

Elvar Geir Magnússon skrifar
Stuðningsmaður United lætur trefil um hálsinn á pappaspjaldi.
Stuðningsmaður United lætur trefil um hálsinn á pappaspjaldi.

Nemandi sem vann í hlutastarfi í söluturni á Old Trafford, heimavelli Manchester United, var rekinn fyrir að sýna mótmælaherferðinni gegn Glazer-fjölskyldunni stuðning sinn.

Jerry Vyse er á fyrsta ári í mannfræði í háskólanum í Manchester. Hann keypti sér gulan og grænan trefil fyrir utan völlinn áður en hann fór að vinna í hálfleik á Meistaradeildarleiknum gegn AC Milan í síðustu viku.

Guli og græni liturinn er tákn mótmælaherferðar gegn núverandi eigendum Manchester United, Glazer-fjölskyldunni bandarísku. Umsjónarmaður söluturnsins bað Vyse um að taka trefilinn af sér en hann neitaði. Var hann þá sendur inn á skrifstofu en viðskiptavinir sem fylgdust með sýndu honum stuðning sinn og bauluðu meðan þessi atburðarás átti sér stað.

„Ég spurði af hverju ég mætti ekki halda áfram að sinna mínu starfi þrátt fyrir að vera með trefil? Ég fékk það svar að það væri ekki vegna þess að ég væri með trefil heldur vegna þess hvernig hann væri á litinn," sagði Vyse í viðtali.

Manchester United gerir hvað sem félagið getur til að þagga niður mótmælaherferðina. Félagið hefur meðal annars bannað leikmönnum að tjá sig um mótmælin, bannað sjónvarpsstöð félagsins að minnast á þau og rak öryggisvörð sem reyndi að skila mótmæla-borða aftur til eiganda.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×