Ómari Stefánssyni, oddvita framsóknarmanna í Kópavogi, var óheimilt að greina frá því að dætur Gunnars Birgissonar og tengdasynir hans hefðu gengið í Framsóknarflokkinn líkt og hann gerði á bloggsíðu sinni í dag. Uppljóstrun Ómars stangast á við reglur Framsóknarflokksins og þá er talið að hann hafi brotið lög um persónuvernd. Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hafði samband við Ómar í dag vegna málsins.
„Ég þarf að skoða þetta. Þetta er ekki tekið úr flokksskránni því það er ekki eins og ég hafi verið að skoða hana og ákveðið að birta þetta." segir Ómar. Þetta hafi komið í ljós þegar hann og aðrir frambjóðendur hafi unnið að því að pakka niður bæklingum sem senda átti til flokksbundinna framsóknarmanna. Aðspurður hvort það sé ekki sami hluturinn segir Ómar svo vera.
Ómar bendir á að Gunnar hafi upplýst að frambjóðandi annars flokks hafi tekið þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Auk þess hafi mótframbjóðandi hans, Gísli Tryggvason, sagt í auglýsingu á Youtube að félagatal Framsóknarflokksins liggi á kosningaskrifstofu hans. Ómar undrast því þau læti sem urðu í dag vegna bloggfærslunnar.
Þá segir Ómar að framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hafi haft samband við sig vegna málsins og sent öðrum frambjóðendum tölvupóst.
Prófkjör Framsóknarflokksins í Kópavogi fer fram næstkomandi laugardag. Þrír sækjast eftir fyrsta sætinu.