Innlent

Kröfðust þess að BNA tæki afstöðu í Icesave málinu

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Einar Gunnarsson, og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess, kröfðust þess við starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, að þeir tækju afstöðu í Icesave málinu.

Annað kæmi ekki til greina og jafngilti því að fylgjast með einelti ofbeldishrotta. Þetta kemur fram í leyniskjali frá Sam Watson, sitjandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og RÚV greindi frá í kvöldfréttum sínum í kvöld.

Í skjalinu segir að Einar og Kristján hafi lýst efnahagslegum hörmungum ef Icesave málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og yrði fellt. Hafi þeir lagt ofuráherslu á að Bandaríkjamenn myndu styðja Íslendinga opinberlega í málinu. Þegar því var hafnað og bent á að Bandaríkjamenn væru hlutlausir í málinu svörðu þeir því til að hlutleysi væri ekki valkostur; það jafngilti því að fylgjast með einelti ofbeldishrotta án þess að grípa inn í.

Þá kom fram hjá RÚV að Breski sendiherrann á Íslandi reyndi fyrir mánuði að fá Norðmenn til að axla ábyrgð á Icesave-skuldinni. Þetta kom fram í viðræðum breska sendiherrans við starfsbróður sinn í bandaríska sendiráðinu sem aftur gerði grein fyrir þessu í leynilegu minnisblaði sem sent var til Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×