Innlent

„Nú tekur þjóðin við kaleiknum“

Mynd/Pjetur
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að nú taki þjóðin við kaleiknum því Icesave málið sé komið úr höndum Alþingis. Hún segir brýnt að málið fái góða kynningu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram fljótlega.

Alþingi samþykkti fyrr í kvöld frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave laganna sem Alþingi samþykkti 30. desember og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, neitaði að staðfesta síðastliðinn þriðjudag. Atkvæðagreiðslan fer fram í síðasta lagi 6. mars. Ólína segir í pistli á heimasíðu sinni að líklegast verði kosið laugardaginn 27. febrúar.

Þingmaðurinn segir að hlutlaus og góð kynning í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar sé afar mikilvæg svo fólk geti áttað sig á þvi um hvað sé kosið.

„Það verður nefnilega ekki kosið um það hvort við ætlum að greiða Icesave skuldina, heldur hvernig. Málið snýst um fyrirvarana við samninginn, og því verður fólk að kynna sér þá vel með samanburði við fyrirvarana í eldra frumvarpinu sem samþykkt var 28. ágúst og mun taka gildi ef þetta frumvarp verður fellt," segir Ólína.


Tengdar fréttir

Þjóðaratkvæðagreiðsla sendir skýr skilaboð

Ólafur Elíasson, einn af forsvarsmönnum InDefence hópsins, segir að samstaða sé eina vopn Íslendinga í Icesave deilunni við Hollendinga og Breta. Þjóðaratkvæðagreiðsla sendi skýr skilaboð. „Með þjóðaratkvæðagreiðslunni getum við sagt Bretum og Hollendingum að það eru takmörk fyrir því hversu langt við erum til í að ganga."

Atkvæðagreiðslan hefst eftir hálfan mánuð

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin fer fram í síðasta lagi 6. mars en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst eftir hálfan mánuð. Stjórnarandstaðan vill að úrslitatilraun verði gerð til nýrra samninga en það telja margir flókið á meðan þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum.

Lög um þjóðaratkvæði samþykkt

Alþingi samþykkti á áttunda tímanum í kvöld frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icsave laganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×