Innlent

Atkvæðagreiðslan hefst eftir hálfan mánuð

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin fer fram í síðasta lagi 6. mars en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst eftir hálfan mánuð. Stjórnarandstaðan vill að úrslitatilraun verði gerð til nýrra samninga en það telja margir flókið á meðan þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum.

Þingið kom saman klukkan hálf ellefu í morgun í fyrsta sinn á þessu ári og var frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu lagt fram við upphaf fundar. Þetta er sögulegur þingfundur því aldrei hafa verið sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslu frá stofnun lýðveldis 1944. Fyrstu umræðu lauk svo síðdegis og var frumvarpinu vísað til Allsherjarnefndar.

Í frumvarpinu er lagt til að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave lögin fari fram eigi síðar en sjötta mars og utankjörfundur hefjist 25.janúar.

Það er augljóslega mikil sátt um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslu á milli allra flokka. Önnur og þriðja umræða fer fram í kvöld og er búist við því að frumvarpið verið samþykkt að því loknu.

Þegar frumvarpið hefur verið samþykkt verður það sent til forseta Íslands til staðfestingar. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að undirbúningur atkvæðagreiðslunnar fari þá á fullt en ekkert útiloki að ríkisstjórnin leiti allra leiða til að ná betri samningi við Breta og Hollendinga. Vandasamt sé þó að standa í hvoru tveggja.

„En um leið vil ég undirstrika að hvernig sem atkvæðagreiðslan þá snýst hún ekki um líf ríkisstjórnar eða setu forseta. Hún snýst bara um það hvort þjóðin staðfesti lögin sem forsetinn vísaði til hennar. Ríkisstjórnin heldur áfram að fullum krafti og Samfylkingin sinni þátttöku í henni algjörlega óháð niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar," segir Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingar.

Skiptar skoðanir eru hins vegar á því innan vinstri grænna. Stjórnarandstaðan vill að stjórnvöld noti tímann fram að þjóðaratkvæðagreiðslu og geri lokatilraun til að leita sátta í Icesavemálinu.

„Það sem ég vona, og við sjálfstæðismenn höfum lagt áherslu á, er að tíminn núna verði nýttur næstu daga og vikur til þess að gera úrslitatilraun til að rétta okkar hlut gagnvart Hollendingum og Bretum," segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Það er gríðarlega mikilvægt að nota tækifærið þessa dagana þegar skilningur á stöðu Íslands er að aukast dag frá degi og klukkutíma frá klukkutíma til þess að fá betri niðurstöðu," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×