Enski boltinn

Allt í lagi að baula en ekki sýna dónaskap

Elvar Geir Magnússon skrifar
Tottenham - Arsenal í kvöld kl. 19.
Tottenham - Arsenal í kvöld kl. 19.

Stuðningsmenn Tottenham hafa aldrei fyrirgefið varnarmanninum Sol Campbell fyrir að yfirgefa liðið fyrir níu árum og ganga til liðs við erkifjendurna í Arsenal.

Þegar Campbell lék með Portsmouth fyrir nokkrum árum þurfti hann að þola ýmis ókvæðisorð frá stuðningsmönnum Tottenham, sum sem flokkast sem kynþáttafordómar.

„Ég er viss um að það verði baulað á hann í kvöld," segir Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, en Campbell er mættur aftur í búning Arsenal og liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Þetta er löng saga og stuðningsmennirnir munu aldrei fyrirgefa honum. Það er í lagi að þeir bauli á hann svo lengi sem þeir gera ekki eitthvað heimskulegt eða láta einhver heimskuleg orð út úr sér."

Redknapp fékk Campbell til Portsmouth á sínum tíma. „Þegar hann fór til Portsmouth vildi hann losna frá Arsenal og þeir vildu losna við hann. Ég hélt að ég myndi aldrei sjá hann leika fyrir félagið aftur," sagði Redknapp.

„Þegar hann fór til Notts County hélt ég að ferli hans væri að ljúka. Skyndilega er hann mættur í lið sem er að berjast um meistaratitilinn og var að keppa í Meistaradeild Evrópu."

Arsenal getur komist upp í annað sætið með sigri á Tottenham í kvöld. Chelsea er á toppnum með 77 stig, Manchester United er með 73 og Arsenal í því þriðja með 71 stig en á leikinn í kvöld til góða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×