Enski boltinn

Indversk yfirtaka væntanleg hjá Blackburn Rovers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Blackburn Rovers.
Stuðningsmenn Blackburn Rovers. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það bendir allt til þess að enska úrvalsdeildarfélagið Blackburn Rovers verði í eigu Indverja í næsta mánuði en Venky eignarhaldsfélagið er komið langt í að klára kaup sína á enska félaginu.

„Við búumst við því að vera fyrsta indverska fyrirtækið sem eignast enskt úrvalsdeildarlið. Við erum sérstaklega ánægðir með að það félag skuli vera Blackburn Rovers því við teljum að við deilum sama metnaði og sömu gildum með félaginu," sagði Anuradha J Desai, stjórnamaður hjá Venky-félaginu í viðtali á heimasíðu Blackburn.

Venky-félagið hét áður Western Hatcheries Ltd og var stofnað árið 1976 aðallega til að stunda kjúklingaframleiðslu. Seinni árin hefur fyrirtækið einbeitt sér að framleiða heilsuvörur og gæludýramat svo eitthvað sé nefnt.

Blackburn er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og aðeins einu sæti frá falli. Blackburn er búið að ná í níu stig í fyrstu níu leikjum sínum en það eru aðeins þrjú stig upp í sjöunda sætið þannig að hlutirnir gætu verið fljótir að breytast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×