Enski boltinn

Maradona spenntur fyrir að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona.
Diego Maradona. Mynd/AP
Diego Maradona sagði í viðtali við Sky Sports að hann sé mjög spenntur fyrir því að fá tækifæri til að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni í framtíðinni. Maradona er að leita sér að nýju starfi eftir að hann hætti með argentínska landsliðið eftir HM.

„Já ég vildi fá að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni. Þar eru mjög góð lið, frábærir leikmenn og flottur fótbolti," sagði hinn 49 ára gamli Diego Maradona.

„Vandamálið fyrir mig er bara það að öll ensku liðin hafa góða stjóra en ef eitthvað mikilvægt starf stendur mér til boða þá mun ég taka við því," sagði Maradona.

„Ég vil samt taka það fram að ég hef ekki boðið mig fram í eitthvað ákveðið starf né hefur mér verið boðið starf hingað til. Ég veit samt að ég mun þjálfa landsliðið aftur einhvern daginn. Ég veit það af því að þar liggja örlög mín," sagði Maradona.

„Þeir tóku landsliðið af mér á ósanngjarnan hátt. Ég sakna landsliðsins," viðurkenndi Maradona að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×