Innlent

Sparisjóðsstjóri í haldi í átta klukkutíma

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Ragnar Zophonías Guðjónsson.
Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Ragnar Zophonías Guðjónsson. Mynd/Anton Brink

Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Ragnar Zophonías Guðjónsson, var í haldi lögreglu í rúmar átta klukkustundir hinn 24. nóvember síðastliðinn í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á Exeter Holding.

Ragnar hefur nú stöðu sakbornings í rannsókninnni. Eins og fréttastofa greindi frá í gærkvöldi er Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, orðinn lykilvitni í rannsókninni á Exeter Holding þó hann sé sjálfur einn sakborninga, en hann leysti frá skjóðunni við yfirheyrslur eftir að hafa verið í haldi lögreglu yfir nótt og gist fangaklefa. Þess var ekki krafist að farbann sem hann hafði sætt í tengslum við rannsóknina yrði framlengt, en hann sýndi mjög mikinn samstarfsvilja við yfirheyrslur og veitti gagnlegar upplýsingar sem nýttust við rannsóknina.

Almannatengill Jóns Þorsteins kom leiðréttingu á framfæri í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, um að Jón Þorsteinn hefði ekki gist fangaklefa heldur heima hjá sér og var þeirri áréttingu komið á framfæri í fréttatímanum, en tekið fram að hún stangaðist á við heimildir fréttastofu. Almannatengillinn dró síðan leiðréttinguna til baka síðar um kvöldið og baðst afsökunar á misskilningnum.

Embætti sérstaks saksóknara hefur undanfarnar vikur sett mikinn þunga í rannsókn á málinu en það snýst um lán upp á 1,4 milljarða króna sem stjórn Byrs veitti Exeter Holding í tveimur hlutum haustið 2008 eftir bankahrunið til að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóðnum á yfirverði af MP banka og tveimur stjórnarmönnum í Byr. Á þeim tíma var markaður með stofnfjárbréf lokaður og verð bréfanna hafði fallið. Lánveitingin er talin mjög ótilhlýðileg af hálfu stjórnar sparisjóðsins, enda hafði enginn annar kost á slíku láni á þeim tíma, til að kaupa eignir sem höfðu lækkað mikið í verði.

Stofnfjárbréfin sem MP banki seldi Exeter Holding á yfirverði hafði hann eignast eftir að hafa gengið að veðum eignarhaldsfélagsins Húnahorns sem var í eigu sparisjóðsstjóra Byrs og nokkurra stjórnenda sparisjóðsins. Með láninu sem Exeter Holding fékk var tjón MP banka takmarkað vegna stofnfjárbréfanna og lenti því á sparisjóðnum sjálfum, sem er í eigu hundruð stofnfjáreigenda.

Stjórn Byrs Ragnar Zophonías eru grunuð um umboðssvik með lánveitingunni, en umboðssvik geta varðað allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar. Umboðssvik eru skilgreind sem svo að maður misnotar aðstöðu sína, sér eða sínum til hagsbóta, en umbjóðanda sínum til tjóns. Til þess að teljast fullframið brot þarf tjón ekki að hafa átt sér stað, heldur nægir að hætta á tjóni hafi skapast.






Tengdar fréttir

Yfir nótt í haldi og leysti frá skjóðunni

Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs er orðinn lykilvitni bankahrunssaksóknara í Exeter málinu. Hann sýndi mikinn samstarfsvilja eftir að hafa gist fangaklefa í eina nótt meðan á yfirheyrslum stóð. Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, hefur einnig verið yfirheyrður í tengslum við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×