Enski boltinn

Deco ákveður framtíðina eftir HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Deco í leik með Chelsea.
Deco í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Deco segir að hann muni taka ákvörðun um framtíð sína hjá Chelsea eftir að heimsmeistarakeppninni í Suður-Afríku lýkur í sumar.

Deco gekk í raðir Chelsea frá Barcelona fyrir átta milljónir punda árið 2008 en hefur ekki náð að festa sig í sessi í byrjunarliði félagsins. Á undanförnum tveimur árum hefur hann verið í byrjunarliðinu í 31 deildarleik.

Hann á enn eitt ár eftir af samningi sínum til félagsins en líklegt þykir að hann fari frá Chelsea og gangi þá til liðs við Fluminense í Brasilíu.

„Það eru góðar líkur á því [að ég fari til Fluminense] en ég get ekki staðfest neitt enn því ég er enn samningsbundinn Chelsea," sagði Deco.

„Ég ætla að ákveða mig eftir HM. En ég er ekki að fara aftur til Brasilíu til að gefast upp. Ég tel að ég eigi enn nokkur góð ár eftir."

Deco er fæddur í Brasilíu en hefur síðan 2003 leikið með landsliði Portúgal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×