Fótbolti

Collina segir að Webb muni standast pressuna í úrslitaleiknum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Collina, svalur sem aldrei fyrr.
Collina, svalur sem aldrei fyrr. GettyImages
Pierluigi Collina, dómarinn magnaði, segir að Howard Webb geti staðist pressuna við að dæma úrslitaleik HM. Það er auðvitað mesti heiður sem dómara getur hlotnast. Webb verður fyrsti dómarinn til að dæma bæði úrslitaleik HM og úrslitaleik Meistaradeildarinnar sama tímabilið. Hann er líka fyrsti Englendingurinn til að dæma úrslitaleik síðan 1974 þegar Jack Taylor dæmdi leik Vestur-Þjóðverja og Hollendinga. "Pressan í úrslitaleiknum er mikil en ef þú ert valinn til að dæma hann ertu að gera eitthvað rétt," sagði Collina sem hætti að dæma árið 2005. "En á hinn bóginn veistu að ef þú gerir mistök er allt það góða sem þú gerðir farið fyrir bí á einu andartaki. En ég hef séð Webb dæma margoft og hef fulla trú á honum," sagði Collina. Hann er nú yfirmaður dómaramála hjá UEFA eftir að hafa gegnt svipaðri stöðu hjá ítalska knattspyrnusambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×