Enski boltinn

Kevin Nolan með þrennu í stórsigri á nágrönnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Nolan fagnar hér einu af þremur mörkum sínum.
Kevin Nolan fagnar hér einu af þremur mörkum sínum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle vann sannfærandi 5-1 sigur á nágrönnum sínum í Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í dag en leikið var á St. James Park. Kevin Nolan skoraði þrennu fyrir Newcastle í leiknum og Shola Ameobi var með 2 mörk. Þetta var annar sigur Newcastle-liðsins í röð í deildinni og kemur liðinu upp í sjöunda sætið.

Kevin Nolan kom Newvastle í 1-0 á 26. mínútu með bakfallsspyrnu eftir hornspyrnu. Nolan bætti síðan við öðru marki átta mínútum síðar þegar hálfmisheppnað háloftaskot Andrew Carroll rataði til hans og fyrirliðinn nýtti sér það og skoraði af öryggi.

Þriðja markið skoraði síðan Shola Ameobi úr vítaspyrnu í uppbótartíjma fyrri hálfleiks eftir að bakvörðurinn Jonas Gutierrez var feldur í teignum.

Slæm staða gestanna varð enn verri eftir sjö mínútna leik í seinni hálfleik þegar Titus Bramble sparkaði niður Andrew Carroll og fékk rauða spjaldið að launum.

Shola Ameobi kom Newcastle í 4-0 á 70. mínútu með sínu öðru marki í leiknum þegar hann fylgdi á eftir skalla Andrew Carroll í slánna.

Kevin Nolan innsiglaði síðan þrennuna sína á 75. mínútu þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir að Shola Ameobi skallaði hornspyrnu Joe Barton til hans.

Darren Bent náði að minnka muninn fyrir Sunderland á 90. mínútu leiksins.

Sunderland var búið að halda marki sínu hreinu í þremur deildarleikjum í röð fyrir leikinn og var aðeins búið að fá á sig sjö mörk í fyrstu 9 leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×