Enski boltinn

Mourinho ætlar ekki að kaupa í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segist ekki ætla að kaupa nýja leikmenn til félagsins í janúar næstkomandi.

Real hefur eytt háum fjárhæðum í leikmenn síðustu ár. Félagið eyddi 250 milljónum evra sumarið 2009 og keypti svo sex leikmenn til viðbótar í sumar, eftir að Mourinho tók við.

Þó er sífellt verið að orða nýja leikmenn við Real, til að mynda Gareth Bale, Fernando Llorente, Wayne Rooney og nú síðast Luis Fabiano, leikmann Sevilla.

„Það er eðlilegt að það skuli verið að tala um leikmenn," sagði Mourinho á heimasíðu Real. „Madrid er Madrid og það verður alltaf mikið rætt um leikmenn. Það er aðallega verið að tala um frábæra leikmenn því enginn myndi trúa neinu tali um miðlungsleikmenn."

„En þetta er sá hópur sem við ætlum að vera með til loka leiktíðar. Þetta eru þeir leikmenn sem við höfum trú á," bætti Mourinho við.

„Við erum ekki með fullkominn leikmannahóp því slíkur hópur er ekki til. En við erum með frábæran hóp leikmanna sem fylla mig sjálfstrausti. Ég vil ekki kaupa leikmenn í vetur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×